152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[20:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég trúi því sannarlega að hér muni koma félagslegir framtakssjóðir. Mig langar að taka smá líkingu við annað mál. Það er nefnilega þannig að það er voða auðvelt að segja græn skuldabréf eða græn fjárfesting. En hvað þýðir það í raun? Ef við horfum aðeins aftur í tímann þá var það þannig að þegar við byrjuðum að tala um lífrænar vörur þá gat eiginlega hver sem er sagst vera með lífræna vöru vegna þess að það var engin skilgreining á því hvað væri lífrænt. Við erum einmitt að ræða hér frumvarp annaðhvort seinna í dag eða á morgun sem tengist lífrænni framleiðslu. Af hverju? Jú, vegna þess að það er búið að setja skilgreiningar og jafnvel vottanir á því hvað sé lífræn vara og lífræn framleiðsla og hvað þarf að uppfylla til að geta kallað vöruna lífræna framleiðslu. Við erum í rauninni að gera nákvæmlega það sama hér. Við erum að skilgreina það hvað er félagsleg eða græn fjárfesting og fjárfestingarvalkostur. Það hjálpar okkur þannig að ef þeir sjóðir sem við erum að búa til uppfylla þær kröfur sem búið er að skilgreina af Evrópusambandinu og við erum að fylgja þeim, þá erum við komin með þennan stimpil, nákvæmlega eins og lífrænu vörurnar fá ákveðinn stimpil um að vera lífrænar vörur. Þetta er í rauninni nákvæmlega sama hugsun nema hér erum við að tala um fjármálagerninga eða mat. En með svona stimpil þá veit ég sem neytandi að þetta er hlutur sem ég get treyst að sé grænn eða samfélagslega arðbær.