Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

lýsing verðbréfa o.fl.

385. mál
[20:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp önnur en að ég styð það. Þarna er um að ræða, sýnist manni, breytingar sem eru í samræmi við EES-reglugerð sem annars vega fela í sér að hámarkið á undanþágu lánastofnana frá þeirri skyldu að birta lýsingu er hækkað úr 75 milljónum evra í 150 á hverju 12 mánaða tímabili eða 10–18 milljarða kr. Síðan fela þær í sér nýtt tímabundið styttra form lýsingar. Þetta eru mikilvægar tímabundnar breytingar til að gefa lánastofnunum aukið svigrúm til að styðja við þau fyrirtæki sem þurfa endurfjármögnun eftir það efnahagsáfall sem hefur fylgt heimsfaraldrinum. Þetta er í raun og veru dæmi um Evrópulöggjöf sem leggur áherslu á að draga úr regluþunga til að styðja við markaðinn og leyfa þá einkaframtakinu að blómstra við tiltölulega erfiðar aðstæður sem uppi hafa verið eftir þann faraldur sem hefur geisað. Það má jafnvel benda á að þetta frumkvæði sem þarna er verið að sýna er frumkvæðið sem íslensk stjórnvöld mættu gjarnan líta til í auknum mæli í stefnumótun. Það að draga úr þessum regluþunga ætti þá að leyfa markaðnum að taka fyrr við sér frekar en að það sé verið að viðhalda miklum regluþunga á þessum tímapunkti og gera þá markaðinn háðari opinberum stuðningi sem virðist hafa verið sú aðferð sem íslensk stjórnvöld hafa valið.