152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

517. mál
[21:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar. Það þarf ekki að horfa til starfsmanna utan Evrópska efnahagssvæðisins til að þekkja það að verið sé að brjóta á fólki vegna vankunnáttu á íslenskum vinnurétti og þeim launakjörum sem hér gilda. Ég þekki það bara af eigin raun sem fyrrverandi formaður stéttarfélags. Það var oft og einatt verið að leita til félagsins vegna þess sem stundum hefur verið kallað launaþjófnaður. Það var verið að greiða fólki undir kjarasamningum og fólk, eins og hv. þingmaður nefnir, var hrætt við að leita til stéttarfélaga til að fá leiðréttingu. Mér dettur nú í hug efnahagslegir flóttamenn sem koma hingað til að leita að betra lífsviðurværi — ég myndi sjálfur, ef ég gæti ekki séð börnunum mínum farborða, vilja fara til Albaníu ef þar ríkti gósentíð til að fá að vinna til þess að geta séð fyrir mér og mínum. Sér hv. þingmaður eitthvað því til fyrirstöðu að við skoðum stöðu þeirra flóttamanna sem við skilgreinum sem efnahagslega flóttamenn, að þeir gætu hugsanlega fengið atvinnuleyfi tiltölulega fljótt? Við vitum auðvitað um þá flóttamenn sem hafa verið að koma frá stríðshrjáðum löndum og þurfa kannski frekari aðstoð og aðlögun bara til þess ná sér eftir mikið álag vegna hugsanlega fjölskyldumissis eða þess háttar en ég velti fyrir mér þeim efnahagslegu flóttamönnum sem koma hingað bara til að leita sér að betra lífsviðurværi, að þeir gætu hugsanlega fengið atvinnuleyfi hér og farið að vinna þar sem okkur vantar vinnuafl.