152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

517. mál
[21:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu máli öllu myndi ég segja að það skipti máli og hafi mikla þýðingu að hæstv. utanríkismálanefnd er mjög samstiga. Allir flokkar eru samstiga í því að styðja við umsóknir Finna og Svía inn í NATO og það kom alveg skýrt fram alls staðar hjá okkur.

Er afstaða íslenskra stjórnvalda eitthvað á reiki í augum annarra? Nei, ég myndi ekki segja það. Það kom bæði fram í prívatsamtölum mínum við ýmsa þingmenn sem sátu og sitja í utanríkismálanefndum þinganna, bæði í Finnlandi og í Eistlandi, að þeim finnst skrýtið hvernig hægt er að hafa forystuflokk sem styður stækkun NATO á erlendri grundu en fer síðan heim og berst fyrir því að NATO minnki með því að taka Ísland út úr NATO. Það var ekki nein kerskni eða glettni í því. Fólk var bara áhugasamt um þetta, hvernig íslensk pólitík virkaði. Það var eiginlega þannig. Ég er alls ekki að kasta rýrð á forsætisráðherra. Þetta er bara veruleikinn af því að þau hafa verið spurð: Ætlið þið að endurskoða stefnu ykkar? Nei. Það er alveg skýrt. Það voru nokkrir þingmenn sem vissu það. Það er sérstaklega það að við séum ekki í tengslum við umheiminn þegar við svörum hérna heima. En það berst líka út og þessir þingmenn vita að Vinstri græn munu ekki endurskoða afstöðu sína hvað varðar varnarsamstarfið. Gott og vel, þá er það bara á hreinu. Þess vegna er enn mikilvægara að skynja það og láta þessa þingmenn, sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur að vera í samskiptum við, í miklu samstarfi við, fá það á tilfinninguna, og ekki bara á tilfinninguna heldur að þeir fái vissu um að það er alger samstaða innan þingsins, í utanríkismálanefnd, við það að styðja stækkun NATO og þar með inngöngu Finna og Svía. Ég vil geta þess að í utanríkismálanefnd er náttúrlega líka fulltrúi Vinstri grænna þannig að þetta er óheppilegt. Þetta er skringilegt. En þetta er veruleiki sem við þurfum bara að búa við og passa upp á íslenska hagsmuni og líka hagsmuni þess að standa saman.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna á að ræðutíminn er tvær mínútur en ekki tvær og hálf.)