152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

517. mál
[21:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja að trúverðugleikinn sem slíkur er ekki hættu. En vandræðaaugnablikin hafa svo sannarlega verið til staðar í samtölum og líka þegar fólk er að átta sig á þessari aðstöðu sem við erum í. Ég viðurkenni það alveg að ég hef greint frá þessum fyrirvara sem hv. þingmaður kom inn á áðan varðandi þjóðaröryggisstefnuna. Engu að síður er verið að fylgja henni eftir. En af því að Vinstri græn eru enn þá með þessa stefnu, af því að við búum við þetta, þetta er mjög viðkvæmt, bara heit kartafla innan ríkisstjórnarinnar, hafa ekki fleiri skref verið tekin á þessum tímum. Hvar er samtalið um það að styrkja varnarsamstarfið við Bandaríkin með því að það taki til þeirra ógna sem við stöndum líka raunverulega frammi fyrir í dag, sem er netöryggið? Það er ekki ótvírætt að það sé inni í varnarsamningnum. Það er heldur ekki ótvírætt að árás á innviði eins og samgöngur og fleira sé árás á öryggi og fullveldi okkar Íslendinga. Þessi samtöl þurfa að eiga sér stað. En á meðan þessi viðkvæmni er innan ríkisstjórnarinnar gagnvart því að ræða þessi mál, og náttúrlega sérstaklega þegar við erum að spyrja út í þessi mál hér heima, þá er svarið alltaf: Já, við fylgjum þjóðaröryggisstefnunni. En það þarf að gera meira. Þá þarf að taka ný og ákveðin skref til þess að verja öryggi okkar og fullveldi einmitt á þessum tímum. Það er ekki verið að gera það heldur er bara verið að sinna lágmarksskuldbindingum þannig að Vinstri grænum líði ekki illa á þessum tímum og þurfi ekki hugsanlega að kyngja einhverjum þáttum í þessu. Það er það sem ég kalla eftir.

Ég ræddi mikið ESB. En ég vil hins vegar benda á að í áhættumatsskýrslunni frá árinu 2009 um utanríkis- og öryggismál sem unnin var vegna umsóknarinnar að ESB, kom alveg skýrt fram að aðild að bandalaginu gæti orðið til hagsbóta fyrir öryggishagsmuni landsins til viðbótar við NATO. Þetta kom alveg skýrt fram í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland árið 2009 og ég efast ekki um að það myndi enn frekar vera þannig í dag.