152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[21:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kynningu á nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar og langar að spyrja hana nokkurra spurninga varðandi þetta mál; hvort leitað hafi verið álits fulltrúa GRECO, af því að frumkvæðið að þessari breytingu kemur frá GRECO, sem er gríðarlega mikilvæg nefnd gegn spillingu. Við erum aðilar að þeirri góðu nefnd og höfum verið það lengi. Þetta er ríkjahópur innan Evrópuráðsins gegn spillingu sem gefur reglulega skýrslu til okkar um hvernig við stöndum okkur. GRECO gerði í tvígang, í annarri og fjórðu skýrslu sinni, athugasemd við skipan Félagsdóms og gerði þar m.a. athugasemd við það að Hæstiréttur tilnefndi fólk í Félagsdóm og gerði líka athugasemd við að ekki væri gerð krafa um að þeir sem tækju sæti í Félagsdómi uppfylltu skilyrði embættisdómara. Það er verið að laga það. En maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði verið ráð að leita til GRECO varðandi það hvernig málinu var stillt upp, af því að ég sé hvergi í umfjöllun um það í greinargerð.

Að öðru leyti vil ég spyrja hvort leitað hafi verið til réttarfarsnefndar eða annarra sérfræðinga í réttarfari, af því að það er jú verið að skipa dómstól og það skiptir máli að hann sé skipaður faglega og að það geti ekki einhver þriðji aðili bara samið úti í bæ og sagt: Það er svo mikilvægt að það samkomulag sem við gerðum raskist ekki. Þess vegna þurfum við að hafa þetta með þessum hætti. Að þetta uppfylli ákveðin skilyrði.

Ég vil spyrja að þessu í mínu fyrra andsvari.