152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið og tek undir að við þurfum að vanda vel til verka þegar við erum að skipa dómstól. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það.

Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu af nefnd sem var skipuð í því skyni að bregðast við þessum athugasemdum sem komu frá GRECO á sínum tíma sem lutu að því fyrirkomulagi sem viðhaft var og er núna hér á landi um skipan dómara í Félagsdóm. Umrædd nefnd ræddi sjónarmið er varða aðkomu Hæstaréttar að skipunarferlinu við vinnslu frumvarpsins og taldi ekki tilefni til að gera frekari breytingar þar á en frumvarpið gerir ráð fyrir. Hæstiréttur hefur komið að þessu ferli allar götur frá 1938. En verið er að færa skipunina frá Hæstarétti til ráðherra m.a. í því skyni að bregðast við þessum athugasemdum frá GRECO, sem er, eins og við vorum að tala um, ríkjahópur um vörn gegn spillingu. Þess vegna tel ég mikilvægt að við vöndum vel til verka og ég vil fá að heyra sjónarmið hv. þingmanns ef hún telur ekki að svo hafi verið gert. En ég tel að þetta fyrirkomulag og þau rök sem komið hafa fram fyrir nefndinni hafi sýnt meiri hlutanum fram á að það hafi verið gert. En hvort nefndin hafi verið leitað til GRECO sérstaklega hvað varðar samningu þessa frumvarps þarf ég bara að fá tækifæri til að kynna mér betur. Ég er ekki með svar við því.