Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[21:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar ég nefndi nefndina þá var ég að tala um hv. velferðarnefnd. Ég var að spyrja hvort hv. velferðarnefnd hefði leitað til GRECO við vinnslu þessa máls. Hún var með þetta mál til umfjöllunar á síðasta þingi og komu fram sömu athugasemdir og núna frá laganefnd Lögmannafélags Íslands og frá sjálfstætt starfandi lögmanni úti í bæ sem benda á sömu atriði og ég hef áhyggjur af, ekki síst eftir að hafa lesið ágæta skýrslu GRECO sem kom út 2019 þar sem er einmitt verið að flagga því aftur að Hæstiréttur tilnefni í dómstólinn, þetta er skipan eða tilnefning, að það skuli vera með þeim hætti. Í greinargerðinni er t.d. vísað í fyrirkomulagið í Danmörku, en það er ekki svoleiðis í Danmörku. Hæstiréttur er ekki að vasast í þessu vegna þess að það er hans að taka á kærumálum og einstaka áfrýjunum úr Félagsdómi. Þó að dómarnir sjálfir séu endanlegir þá eru einstaka atriði, eins og við vitum, sem fara upp í Hæstarétt. Þá getur verið óheppilegt að Hæstiréttur hafi tilnefnt þrjá, sem þar að auki skapa ójafnvægi í réttinum vegna þess að þeir sem tilnefndir eru af Hæstarétti, þessir þrír, eru með ótímabundna skipan í dóminn á meðan þeir sem tilnefndir eru af aðilum vinnumarkaðarins eru með tímabundna skipan. Það gerir það að verkum að þeir sem eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins eiga sína framlengingu undir þeim sem tilnefna þá en ekki hinir þrír. Þetta ógnar sjálfstæði dómara og um þetta eru ekki skiptar skoðanir heldur er hreinlega fjallað um þetta á fjölmörgum stöðum.