Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. velferðarnefnd hafði ekki samband við GRECO sjálft því að það er ekki GRECO sem gefur beint álit á því hvernig við gerum þetta heldur var það í úttektarferlinu sem þessar athugasemdir komu fram, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á. Þær komu fram í fyrra af því að við vorum ekki búin að breyta þessu fyrirkomulagi þá. Verið er að gera tilraun til þess að breyta fyrirkomulaginu hérna. Að gefa til kynna að það verði einhvers konar ójafnvægi í völdum eða vægi dómara innan dómsins — ég myndi ekki ganga svo langt að segja að það sé langsótt, en mér finnst hæpið að við séum að skapa þær aðstæður fyrir dómara sem eru fullfærir til að starfa undir þessum kringumstæðum, þ.e. í Héraðsdómi og Landsrétti. Þó að Hæstiréttur tilnefni þá er það samt sem áður ráðherra sem skipar þá. Mér finnst mikilvægt að við gerum þessar breytingar. Ég hef fulla trú á þeim og mér finnst þær gera það sem lagt er upp með að gera, þ.e. að mæta þessum athugasemdum GRECO um það hvernig við ætlum að haga vörn gegn spillingu.

Hv. þingmaður talar um tilnefningu eða skipun. Mér finnst það svolítið áhugavert af því að ég held nefnilega að þarna séum við samt sem áður á endanum að gefa ráðherra það ákvörðunarvald að skipa. Ég hef trú á því að við séum að ganga í rétta átt og séum að mæta þessum athugasemdum GRECO.