Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér Félagsdóm og ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir sköruglega ræðu og eiginlega fyrir að hafa komið mér í uppnám vegna þess að ég er á þessu nefndaráliti. Ástæðan fyrir undrun minni er sú að eftir að hafa hlustað á öll rökin í málinu fyrir nefndinni kom í ljós að aldrei þessu vant, sem er eiginlega stórfurðulegt og mjög sjaldgæft, voru Samtök atvinnulífsins og ASÍ algjörlega sammála, gjörsamlega 100% sammála. Þetta er í eitt af fáum skiptum sem maður sér svoleiðis. Bæði félögin ítrekuðu fyrir nefndinni að þetta væri bara flott svona og það ætti að láta þetta fara svona. Þess vegna spyr ég: Ef þetta er klúður og ef við erum að klúðra þessu máli gagnvart GRECO þá hlýtur það að verða álitshnekkir fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins og ráðuneytið. Ég fór líka að hugsa hvort þetta mál hefði yfirleitt verið á réttum stað í velferðarnefnd vegna þess að þar held ég að séu fæstir lögfræðingar að störfum. Þannig ég spyr hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur: Hverjar telur hún afleiðingarnar verða? Telur hún að þetta standist ekki og mun það þá lama þennan dómstól? Hvernig verður þá hægt að leysa þetta mál? Ég segi fyrir mitt leyti að ef þeir sem þetta mál varðar aðallega eru sammála, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, þá hlýtur þetta að eiga að virka fyrir þá. Þeir hljóta að vera búnir að grandskoða þetta.