Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir einlægt andsvar og ég skil vel að hann klóri sér í kollinum. Ég skil vel að fólk verði uppnumið yfir því að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands séu sammála um einhvern hlut. Þarna voru þau sammála. En við erum hér að skipa í Félagsdóm sem á að lúta ákveðnum reglum og þau voru sammála um að þeir sem taka sæti í Félagsdómi þurfi að uppfylla skilyrði fyrir því að vera skipaðir dómarar yfirleitt og það er gott. En ef þetta er klúður þá er það ekki bara álitshnekkir fyrir ráðuneytið, ASÍ og SA, heldur fyrir okkur, af því að það erum við sem erum að breyta þessum lögum. Það endar alltaf heima hjá okkur. Við skipuðum hér gríðarlega mikilvægt millidómstig sem heitir Landsréttur. Þar var auðvitað þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra dæmd fyrir brot á öllum dómstigum, innan lands og utan, er hún skipaði þann dóm. Það er álitshnekkir fyrir Ísland í heild sinni. Það er það. Þetta er bara prófmál. Ég fór til Strassborgar og fylgdist með því þinghaldi sem átti sér stað þar, í yfirdeildinni, og þar var saman kominn gríðarlegur fjöldi fólks frá mörgum ríkjum sem er bara áhugafólk um réttarfar og þrígreiningu ríkisvalds o.s.frv., sem var forvitið að vita hvernig þetta gat gerst. Við viljum ekki fá á okkur spillingarstimpilinn. Þess vegna verðum við að vanda okkur svo vel. Þetta er líka álitshnekkir fyrir okkur. Þess vegna skiptir það mig mjög miklu máli að flagga því að ég geld varhug við að við förum þessa leið. (Forseti hringir.) Það þýðir ekki að byggja það á einhverju samkomulagi, að verða mjög uppnuminn yfir því að þessir tveir aðilar nái einhverju samkomulagi.