Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Hún var mjög góð. Ég er með nokkrar spurningar hvað varðar hæfisskilyrðin sem verið er að skýra núna varðandi þá dómara sem aðilar vinnumarkaðarins skipa í dóminn. Telur hún óþarft að við göngum svona langt varðandi hæfisskilyrðin eða erum við bara sátt við að verið sé að ítreka að við séum með ríkari hæfisskilyrði hvað varðar þá dómara sem taka sæti í dómnum sem eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins? Svo er ég með aðra spurningu: Hvað með skipun í endurupptökudómstól, því að hv. þingmaður nefndi hann sérstaklega hér áðan? Telur hv. þingmaður að endurupptökudómstóll og Félagsdómur séu eðlislíkir dómar og þar með eigi skipanin að vera sú sama? Svo er önnur spurning: Hv. þingmaður tók Danmörku sérstaklega út fyrir sviga áðan, að þetta væri ekki fyrirkomulagið þar. En þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig fyrirkomulag er í Noregi? Ein spurning í viðbót, ég veit að þær eru margar: Erum við ekki bara viss um að þeir sem eru skipaðir eða tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins séu hæfir og með slíka þekkingu að þeir séu gildir í Félagsdómi þrátt fyrir að Hæstiréttur tilnefni forseta og varaforseta dómsins?