Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða yfirferð um skipan dómara og hvernig landið liggur í þeim málum. Á þeim nótunum rifjast upp fyrir manni ýmis mál á undanförnum árum og tengsl þeirra við skipan og stöðu dómara. Nú er það svo að til þess að fá stöðu dómara þá hjálpar rosalega mikið að vera með starfsreynslu sem dómari og þú getur í rauninni ekki fengið starfsreynslu sem dómari nema hafa verið skipaður dómari á einhvern hátt, sem er dálítið öfugsnúið. En svo þegar dómarar fara í leyfi þá geta þeir tilnefnt einhvern sem sinnir stöðunni á meðan og þá eru dómarar þannig séð í rauninni að velja hverjir fá dómarareynslu og þar af leiðandi, þegar næsta sæti losnar, eru það augljóslega þeir sem eru hæfastir. Áhugavert hvernig það fer fram.

Það næsta sem maður rekur augun í er þegar Landsréttur var skipaður hérna ólöglega, sem hefur farið alla leið í Mannréttindadómstól Evrópu, og viðkomandi dómarar eru samt enn til staðar af því að þeir hoppuðu úr einu sæti í annað. Þeir voru skipaðir upp á nýtt eftir umsókn af því að þá losnaði einn stóll. Þeir sóttu um þann stól þrátt fyrir að vera enn þá dómarar og náðu að nýta reynslu sína sem Landsréttardómarar á meðan þeir sátu þarna ólöglega skipaðir til að verða hæfari í nýju stöðuna. Þetta segir mér að það er eitthvað ekki alveg fullkomið (Forseti hringir.) í því hvernig dómarar eru almennt séð skipaðir. Þetta er flókið mál.