Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Já, þetta er flókið. Það er flókið að skipa dómstól, sérstaklega í því tilviki sem hv. þingmaður er að vísa í þegar Landsréttur, hið mjög svo mikilvæga millidómstig, var skipaður. Það var auðvitað mjög flókið og eftirleikurinn gríðarlega flókinn. Í því tilviki var það auðvitað líka þannig að það átti sér stað í einhverjum tilvikum að einstaklingar sem höfðu verið fluttir upp í hæfisflokki sóttu síðar um en þá voru bara mættir aðrir sem voru enn hæfari sem fengu stólinn. Það gerðist líka og þrátt fyrir að þeir væru búnir að ná sér í einhverja starfsreynslu. En við erum auðvitað enn þá að kljást við eftirmála þess máls, af því það er enn þá verið að semja hjá ríkislögmanni við þá fjölmörgu aðila sem leituðu með mál sín til Mannréttindadómstóls Evrópu og óskuðu eftir viðurkenningu. Þegar lög um dómstóla varðandi endurupptökudómstól voru samþykkt hér á þingi var t.d. talað um mikilvægi þess að einstaklingar sem ættu sambærileg mál og þau sem hafði verið snúið í Strassborg eða hjá öðrum dómstólum þyrftu ekki að fara allir til Strassborgar líka áður en þeir gætu leitað til endurupptökudómstólsins. Það var mjög mikilvæg réttarbót. En þetta er flókið. (Forseti hringir.) Við erum auðvitað ofboðslega fá (Forseti hringir.) og svo er lögfræðin drottning ágreiningsmálanna.