Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér enn að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, um Félagsdóm. Eins og ég sagði fyrr í andsvari við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur er ég á þessu máli og þetta er eitt af þessum málum sem maður hefur þá tilfinningu fyrir að sé svo einfalt, auðvelt að vinna og sé ekki flókið vegna þess að það komu fyrir nefndina fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, ASÍ og frá Samtökum sveitarfélaga og allir voru sammála um að þetta væri alveg frábært mál, bara frábært mál og búið að vinna það vel. Þetta er, eins og kemur fram, eitt af þeim fáu málum þar sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ eru innilega sammála um að koma málinu í gegn. En það sem er kannski svolítið furðulegt við þetta mál er að það er verið að skipa dómara sem hafa sérfræðiþekkingu í vinnurétti og það kemur skýrt fram að þeir virðast ekki vera mjög margir og þeir fáu sem til eru starfa annaðhvort hjá stéttarfélaginu eða atvinnurekendum, þannig að kannski er ekki um mjög auðugan garð að gresja að finna sérfræðinga í vinnurétti. Fámennið hér hefur áhrif.

En það er auðvitað grafalvarlegt mál ef við erum að setja lög sem standast ekki og GRECO, sem er ríkjahópur Evrópuráðsins gegn spillingu, hefur gert athugasemdir. Ef við uppfyllum ekki þessi skilyrði og sjáum ekki til þess að þessi dómstóll sé löglegur og hann virki þá erum við í rosalega slæmum málum. Mér finnst í mörgum málum þegar um dómstóla og lögmenn er að ræða einhvern veginn hægt endalaust að teygja og toga málin og ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað er rétt og hvað er rangt í þessu.

Hér var umræða um það hvernig hefur verið tekið á þessum málum, t.d. í Danmörku og Noregi. Með leyfi forseta, þá fer ég beint í lagafrumvarpið og þar segir orðrétt:

„Sú tilhögun sem hér er lögð til hvað varðar skipun dómara í Félagsdóm tekur mið af framangreindum athugasemdum GRECO en jafnframt var höfð hliðsjón af því hvernig þessum málum er háttað hjá dómstólum sem dæma í ágreiningsmálum aðila vinnumarkaðarins í Danmörku og í Noregi. Tólf dómarar skipa Arbejdsretten í Danmörku en ráðherra vinnumála skipar þá eftir meðmælum ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins. Helmingur dómaranna þarf að uppfylla sömu hæfisskilyrði og dómarar við almenna dómstóla. Sjö dómarar sitja í Arbeidsretten í Noregi. Þar af eru þrír fastir embættisdómarar en Noregskonungur skipar hina fjóra til þriggja ára í senn að fenginni tilnefningu aðila vinnumarkaðarins og ráðuneytis.“

Svo komum við með enn eina útgáfu, virðist vera, í þessu máli. Eins og hefur komið fram er kannski vandamálið það að ráðherra skipar dómara í dóminn eftir tilmælum frá Hæstarétti. Það er kannski svolítið sérstakt í þessu máli. Það mun auðvitað reyna á það, hvort þetta sé það rétta. Ég vona heitt og innilega að þetta virki. En ef þetta virkar ekki þá erum við í frekar slæmum málum og þurfum aldeilis að endurskoða vinnubrögðin. Þegar maður situr og pælir í þessu þá kemur þetta mál frá félags- og vinnumarkaðsráðherra og fer inn í velferðarnefnd. Ég fór að hugsa hvort þetta væri á réttum stað til umfjöllunar í þeirri nefnd og hvort það hefði ekki verið betra að það hefði verið til umfjöllunar annars staðar. Ég veit það ekki. En eftir að hafa verið í nefndinni og og fengið fyrir nefndina þessa aðila sem þetta mál varðar og hlustað á þá, þá gat maður ekki eiginlega í sjálfu sér tekið neina aðra afstöðu en að þetta mál væri bara flott svona og þetta myndi virka algerlega vegna þess að það var ekkert — jú, það voru ábendingar frá Lögmannafélaginu og lögfræðiskrifstofu en það var borið undir þá aðila sem þetta varðaði og virtust allir vera sammála um það að þetta hefði ekki áhrif vegna þess að það væri búið að breyta tilskipuninni þannig að þetta væri í lagi. Út frá þeim öllum upplýsingum og því sem þar kemur fram og því sem ég skrifaði sjálfur athugasemdir við þegar þetta var til umfjöllunar þá gat ég eiginlega ekki tekið neina aðra afstöðu en að vera á málinu. En ég sé líka að hv. þm. Óli Björn Kárason setur fyrirvara. Ég man ekki alveg nákvæmlega út af hverju það var en það kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Óli Björn Kárason ritar undir álit þetta með fyrirvara um að til að tryggja jafnræði og jafna stöðu dómara færi betur á því að skipunartími allra dómara væri jafn …“

Hann var ekki að gera athugasemdir við aðferðafræðina heldur eingöngu skipunartímann. Það var töluvert rætt, skipunartíminn, vegna þess, eins og hefur komið fram, þá eru hæstaréttardómararnir skipaðir ótímabundið en hinir skipaðir til þriggja ára. Ég furða mig kannski á því miðað við það sem ég las í einni umsögninni, það er talað um að það séu ekki svo margir hæfir sem sérfræðingar í vinnurétti. Þá hugsaði ég með mér, út af þessum þremur árum og það kom fram að það mætti endurskipa þá, og segi bara eins og er að eftir þessa umfjöllun hér er ég kominn með efasemdir um að þetta standist. En ég vona heitt og innilega að við séum hérna með frumvarp sem er í lagi. Ef svo er ekki þá fáum við kannski enn einu sinni á okkur áfellisdóm um að við séum ekki að uppfylla skilyrðin um að sjá til þess að það sé ekki spilling í okkar kerfi. En ef maður hugsar líka um það hversu ánægð ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru með þetta mál þá hlýtur það að vega töluvert vegna þess að þetta mál varðar þau að stærstum hluta, stéttarfélög þeirra. Ég var eiginlega bara hissa hversu ofboðslega ánægð þau voru og hversu samstiga þau voru þannig að það var í sjálfu sér ekkert annað hægt að gera en að vera á málinu. Þá verður maður bara að krossa fingur og vona að þetta sé rétt og gangi upp.