Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki lögfræðimenntaður en aðalbreytingin virðist sú að núna mun ráðherra skipa dómara í dóminn, frá í Hæstarétti eða Landsrétti, að tilmælum Hæstaréttar. Það virðist vera það sem á að vera lausnin í þessu máli. En eins og hefur komið fram hjá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þá er það ekkert lausn vegna þess að það hefur þau áhrif að ef Hæstiréttur tilnefnir einhvern þá getur ráðherra ekki annað en samþykkt viðkomandi. Ég hef líka áhyggjur af því, ég veit ekki hvort það er einhver tölfræði yfir það, hversu margir dómarar eru sérfræðingar í vinnurétti og hversu margir lögmenn uppfylla öll þau skilyrði sem þarf til að dæma í þessu og hafa þessa sérfræðiþekkingu. Ég hef bara ekki hugmynd um það. En eins og ég sagði í ræðu minni og í nefndinni þá sá ég að lögmenn og Lögmannafélagið bentu á að þetta væri ekki nóg en af því að það var einlæg skoðun ASÍ og SA að þetta væri bara hið besta mál sem þeir vildu koma í gegn og þetta myndi virka svona þá taldi ég að það væri rétt og fór á málið á þeim forsendum og nú bara krossar maður fingur og vonar að svo sé.