Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aftur vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að vera hreinskilinn og einlægur í sinni ræðu og tala blátt áfram um það sem átti sér stað í nefndinni, af því að það sem við segjum hér í ræðustól eru líka lögskýringargögn og það getur verið gott í viðkvæmum málum að hafa þá alla vega flaggað því að hlutirnir voru ekki í lagi og fljóta ekki sofandi að feigðarósi. Auðvitað er líka ákveðinn vanmáttur. Maður getur ekki verið sérfræðingur í öllu og þá þarf maður að treysta því að þeir sem nefndin kallar inn séu sérfræðingar. Eftir að hafa lesið nefndarálitið með breytingartillögu þá velti ég fyrir mér að það sé talað um í umfjöllun nefndarinnar að umsagnaraðilar hafi gagnrýnt það fyrirkomulag að þrír skipaðir dómarar af fimm skulu koma úr röðum embættisdómara, og að þá hafi líka verið gagnrýnt að þeir væru skipaðir ótímabundið en aðrir dómarar bara til þriggja ára. En það er ekkert minnst á það í nefndarálitinu. Í rauninni er fyrsta gagnrýnin sem kemur frá laganefnd Lögmannafélagsins, sem er sett á laggirnar til að rýna lög og gera athugasemdir, sú að Hæstiréttur sé yfirleitt að tilnefna. Það er ekkert talað um það í nefndarálitinu. Mér finnst svolítið skrýtið að það sé ekkert á það minnst af því að um það er heilmikið fjallað, bæði af Lögmannafélaginu og JS lögmannsstofu.