Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni Helgu Völu Helgadóttur andsvarið. Ef ég skildi hana rétt þegar ég heyrði ræðuna og síðast þegar við vorum að tala um þetta felst vandamálið í því að Hæstiréttur tilnefnir ákveðna aðila í dóminn, síðan kemur ráðherra og skipar í dóminn en ráðherra hefur ekkert val. Ef því yrði breytt þannig að ráðherra hefði eitthvert val, myndi það breyta einhverju? Hvernig er hægt að breyta þessu þannig að það væru mun meiri líkur á að þetta virkaði? Ég veit það ekki. Ef einhver getur séð einfalda lausn á þessu máli myndi ég telja að það væri sjálfsagt að taka málið aftur inn í nefndina, finna þessa lausn og tryggja að þetta sé þá alla vegana rétt. Það væri kannski einfalt mál að fá þessa aðila örstutt aftur fyrir nefndina sem hafa fullyrt að þetta mál væri pottþétt og hvort þeir gætu þá einhvern veginn málefnalega rakið það eða staðfest að það þurfi einhverjar ákveðnar breytingar. Eins og ég segi þá hef ég ekki hugmynd um það. En vonandi verður einhvern veginn hægt að tryggja að þetta mál verði okkur ekki til háborinnar skammar.