Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt mál sem við erum að fjalla um hérna og mikilvægið felst annars vegar í þeirri sögu sem við eigum um ákveðinn vandræðagang þegar við komum nálægt dómstólamálum hér í þingsal og líka vegna þess að Félagsdómur gegnir mikilvægu hlutverki. Mig langaði því að koma hingað upp og taka þátt í þessari umræðu, ég sit ekki í hv. velferðarnefnd en hef setið hér frá upphafi og fylgst með umræðunni og farið yfir þær umsagnir sem komu fram um málið. Ég verð að segja að ég er eiginlega ekki miklu nær, þ.e. um ágæti þessa máls, ekki mikið upplýstari en ég var áður en ég hóf að upplýsa mig með þessum gögnum vegna þess að mér þykir þetta svolítið sérstakt. Kannski má segja að sú vegferð hefjist þegar ég ætlaði að lesa nefndarálit frá meiri hluta velferðarnefndar og í ljósi þess að það eru uppi mikil álitamál þá fór ég að leita að nefndaráliti minni hlutans til að fá mótvægið og þá kemur í ljós að allir nefndarmenn eru á þessu áliti þannig að þetta er náttúrlega ekki nefndarálit meiri hluta heldur nefndarálit velferðarnefndar. Það er eitt.

Síðan berast fjórar umsagnir um málið, ein frá ASÍ, ein frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá Lögmannafélaginu og ein frá lögmannsstofu. Í þeim tveimur sem berast ekki lögmönnum heldur ASÍ og sveitarfélögunum lýsa umsagnaraðilar yfir ánægju með málið, ekki síst í ljósi þess að þegar þetta er orðið eins og þetta á að vera þá er það jákvætt og ég held að við getum öll verið sammála um það. En í umsögnum hinna tveggja er umtalsverð gagnrýni sem mér þykir nefndin skauta býsna létt yfir, svo ég segi nú bara eins og er. Það er afgreitt þannig, svo ég vísi í álitið hér, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið var unnið í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins undir yfirumsjón sérfræðinga í ráðuneytinu.“

Ég ætla að varpa því hér upp, hafandi setið sjálf í hv. velferðarnefnd, hvort mögulega hefði — og í þessu felst engin fullyrðing, ég varpa þessu bara fram og ég tel að það eigi erindi hér inn í ljósi þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á málið — umsögnum Lögmannafélagsins og lögfræðistofunnar verið gert hærra undir höfði í meðförum annarra nefnda, t.d. allsherjar- og menntamálanefndar, vegna þess að mér virðist velferðarnefnd hafa horft meira í sinni umsögn á hina jákvæðu þætti þess að hér væri verið að breyta hlutum en kannski ekki lagt jafn mikinn þunga í að svara eða bregðast við þeirri gagnrýni sem kemur fram frá Lögmannafélaginu og öðrum aðilum. Það endurspeglast síðan í ýmsum ræðum hér í þingsal. Þetta eru nú bara vangaveltur hjá mér og fólk getur verið eins sammála eða ósammála því og því lystir. En það eru gegnumgangandi hér þrjár breytingar. Eins og fram hefur komið eru þessar breytingar sem verið er að gera hér á skipan dómara við Félagsdóm gerðar vegna athugasemda ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu, GRECO, fyrir níu árum, svo því sé til haga haldið. Ég held að ég fari rétt með að þetta frumvarp hafi einu sinni verið lagt fram áður og það er á síðasta þingi en ekki náð fram að ganga.

Í fyrsta lagi erum við að tala um þá breytingu að ráðherrar skipi fimm dómara við Félagsdóm, einn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands og síðan þessa þrjá sem tilnefndir eru af Hæstarétti og þar með kemur fram gagnrýni á þau tengsl á milli Hæstaréttar og Félagsdóms sem eðli málsins vegna verða við þetta fyrirkomulag. Við höfum rætt hér, í umræðunni um þetta mál, um muninn á því að skipa eða tilnefna meðan staðreyndin er auðvitað sú að ef þeir sem tilnefndir eru jafn margir þeim sem skipaðir eru, þá er þetta de facto enginn munur. Síðan er það mismunurinn á því að þeir dómarar sem ráðherra skipar samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar eru skipaðir ótímabundið á meðan hinir tveir eru skipaðir tímabundið. Það hlýtur að hafa í för með sér einhvern mismun og það er svo sem búið að fara yfir það hér, áhættuna á því. En síðast en ekki síst er það kannski þessi mismunur á hæfnisskilyrðum sem gerð eru til dómara sem annars vegar eru tilnefndir af Hæstarétti og hins vegar af Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu. Þetta eru frekari hæfnisskilyrði en gerð eru til félaga Dómarafélagsins í dag. Samkvæmt gildandi lögum skulu dómarar vera íslenskir ríkisborgarar, fjárráða og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir nánar tilgreindan refsiverðan verknað. Þeir tveir sem nú eru skipaðar af Hæstarétti skuli jafnframt hafa lokið embættisprófi í lögfræði. En í þessu frumvarpi er kveðið á um að þessir þrír dómarar sem eru skipaðir, vissulega ekki af Hæstarétti en samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, skuli vera dómarar við Landsrétt eða héraðsdóm á meðan þeir gegna embættinu. Hinir tveir dómararnir eru skipaðir af Samtökum atvinnulífsins og ASÍ og skulu uppfylla önnur skilyrði, hafa lokið embættisprófi eða sambærilegu prófi í lögfræði, en hafa ekki þessa ríku skyldu.

Mér skilst, við fljóta yfirferð, að það sé ekki hægt að lesa það út úr athugasemdum GRECO að þar hafi þessi síðarnefnda breyting verði lögð til, auk þess sem hún rímar illa, og það kemur fram í umsögnum við málið, við reglur um t.d. bann við aukastörfum dómara. Mér finnst að ekki eingöngu hafi velferðarnefnd ekki séð ástæðu til að gera tillögu til breytingar í samræmi við þessa gagnrýni heldur finnst mér hún ekki heldur hafa séð ástæðu til að rökstyðja breytinguna sem gerð er, ástæðuna fyrir því að þetta sé svona. Þá er ég ekki að meina eitthvert huglægt mat. Það sem ég er að reyna að segja er að mér þykja athugasemdir Lögmannafélagsins svo vel rökstuddar og hvíla á svo sterkum grunni að ef ekki er tekið tillit til þeirra og farið eftir þeim þurfi það að vera vel rökstutt í nefndaráliti. Og ég sakna þess, svona sem utanaðkomandi manneskja sem er að reyna að setja sig inn í þetta mál.

Hér hefur verið talað töluvert um að við séum mögulega að koma okkur í einhver vandkvæði með þessari útgáfu, það geti ríkt einhver vafi á því að við stöndum hér þurrum fótum með því að hafa annars vegar þessi tengsl, að Hæstiréttur hafi þessi ítök í dómstólnum, og að þessi munur sé á milli þeirra krafna sem gerðar eru til dómara eftir því hver skipar eða hver tilnefnir og síðan tímalengd skipunarinnar. Ég heyrði það ekki svo gjörla hvort farið var fram á að málið yrði tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. eða hvort það var bara nefnt að það væri möguleiki. Ég tel að það sé kannski í höndum nefndarfólks í velferðarnefnd að taka afstöðu til þess eða annarra sem þekkja málið betur. En ég myndi óska þess að við stæðum sterkari fótum í þessu máli. Mér finnst óþægilegt að hafa ekki fengið sterkari rök fyrir því af hverju verið er að dansa á þessari línu vegna þess að mér finnst Lögmannafélagið vera svo afgerandi í umsögn sinni um þetta mál og eftir að hafa hlaupið á nokkrum atriðum frá GRECO, í tillögum þeirra, þá sýnist mér við ganga að einhverju leyti lengra og það sé órökstutt. Ég veit ekki nákvæmlega — mér sýnist við vera að klára umræðuna um þetta mál — hvar við endum með þetta en alla vega hefði ég viljað sjá álit velferðarnefndar, sem er samstiga í þessu máli, vera ítarlegra.