Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ræðuna. Mig langar að koma hérna upp, ekki kannski endilega með eiginlega spurningu eða andsvar heldur meira til að árétta nokkur atriði. Það rifjaðist upp fyrir mér undir umræðunni hér í þingsal að á fundi velferðarnefndar var óskað eftir því sérstaklega að nefndin og framsögumaður málsins myndu leita til réttarfarsnefndar til að fá álit um frumvarpið og skipanirnar. Framsögumaður hafði samband við ritara réttarfarsnefndar í dómsmálaráðuneytinu sem sagði að réttarfarsnefnd væri ekki umsagnaraðili að frumvörpum en aðspurð sérstaklega um þessi atriði sem væru mikið til umræðu hér hvað varðar skipan í dóminn þá sagði hún að þetta væri í samræmi við það sem GRECO væri að gera kröfu um.

Svo ætla ég að nýta tækifærið og lesa núgildandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Í dóminum eiga sæti fimm menn sem skipaðir eru til þriggja ára þannig: Einn af Samtökum atvinnulífsins, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af ráðherra úr hópi þriggja manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, og tveir af Hæstarétti og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins.“

Þetta er núverandi fyrirkomulag og að mínu mati er það til bóta það sem hér er lagt fram. Við erum að taka skipanina eins og hún er núna af Hæstarétti til að tryggja hlutleysi.