Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Kæra þjóð. Sá sem hér stendur las álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um störf Landhelgisgæslunnar. Þá datt mér í hug máltækið: Greindur nærri getur, en reyndur veit þó betur. Ég hef staðið í eigin atvinnurekstri í yfir 40 ár og gjarnan farið erlendis og viðað að mér hugmyndum um það sem ég vil gera. Ég hef verið í veitingarekstri, Hótel Borg og fleiri stór fyrirtæki sem ég hef staðið að, og alltaf þegar ég geri eitthvað nýtt þá fer ég erlendis með þá sem eiga að stjórna og sýni þeim hvað það er sem ég er að hugsa, svo þeir viti hvað ég er að tala um. Mér datt það í hug varðandi þessa skýrslu og varðandi störf Landhelgisgæslunnar. Tæki, búnaður, vélar og áhöld og allt sem Landhelgisgæslan er með kostar hundruð milljóna, jafnvel milljarða, og mér hefði fundist það ekki galin hugmynd að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi kannski í sumarfríinu fara í ferðir með farkostum Landhelgisgæslunnar og kynna sér reksturinn af eigin raun og jafnvel að ráðherrarnir myndu sem oftast fara í þyrluna, fara í flugvélina, fara á skipin bara til að vita um hvað þetta snýst þegar þeir eru að taka ákvarðanir um hvað á að kaupa og hvað á að gera í sambandi við störf Gæslunnar. Það er bara stórmál að hafa reynslu frá eigin hendi.