Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Eins og frægt er orðið stendur til að flytja úr landi 200–300 flóttamenn sem hafa verið hér á landi nokkurn tíma. Fyrir stuttu sendu Landssamtökin Þroskahjálp fyrirspurn til stoðdeildar ríkislögreglustjóra varðandi það hvort í þeim hópi fólks sem vísa á frá landinu sé fatlað fólk. Óskað er eftir sundurliðun eftir fjölda, eðli fötlunar og hvort um sé að ræða einstaklinga á eigin vegum eða í fylgd með fjölskyldu og/eða börnum, einnig um hvert standi til að vísa viðkomandi. Stoðdeildin vísaði á Útlendingastofnun sem svaraði með þeim hætti að upplýsingar af þessu tagi væru ekki skráðar með þeim hætti í upplýsingakerfi Útlendingastofnunar að hægt væri að taka saman tölfræðiupplýsingar þar að lútandi.

Hvorki stoðdeild ríkislögreglustjóra né Útlendingastofnun gátu þannig svarað því hvort í hópi þeirra flóttamanna sem standa frammi fyrir brottvísun sé fatlað fólk. Að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort fatlað fólk sé í þeim hópi, hversu margir, hvers eðlis fötlun þeirra er og hvort þau séu í fylgd með öðrum eða ekki, er fullkomlega óásættanlegt. Þá gefur það tilefni til efasemda um að fatlað fólk sem brottvísað er njóti viðeigandi aðlögunar í ferlinu, svo sem skylt er að veita samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samkvæmt 31. gr. samningsins ber ríkjum í ofanálag að safna tölfræði um stöðu fatlaðs fólks, en ákvæðið kveður á um að aðildarríkin skuli safna viðeigandi upplýsingum, m.a. tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að framfylgja samningnum. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim. Ég endurtek: Hvorki stoðdeild ríkislögreglustjóra né Útlendingastofnun gátu veitt svar við því hvort í hópi þeirra flóttamanna sem standa frammi fyrir brottvísun sé fatlað fólk. Af þessu leiðir að allt tal um að mannúð sé höfð að leiðarljósi við þessar brottvísanir er, eins og margt annað sem frá þessari ríkisstjórn kemur, innantómt hjal.