Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í gær barst svar hæstv. forsætisráðherra við skriflegri fyrirspurn um skoðun hennar á hæfi fjármálaráðherra við söluna á Íslandsbanka og hvort ástæða hefði verið fyrir fjármálaráðherra að víkja sæti í því tiltekna máli. Við þekkjum jú öll umræðuna; gagnrýni á að pabbi fjármálaráðherra var í hópi þeirra rúmlega 200 sem bauðst að kaupa í lokuðu útboði. Sú ákvörðun setti fjármálaráðherra í þá stöðu að hafa samþykkt kaup fyrir hönd ríkisins þar sem pabbi hans var á meðal tilboðsgjafa. Sú ákvörðun setti fjármálaráðherra jafnframt í þá stöðu að hafa undirritað samning þar sem pabbi hans var á meðal kaupenda. Fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt að hann hafi aldrei hugleitt hæfi sitt í þessu máli, hafi ekki þurft þess. Engin svör fengust þó um það hvers vegna fjármálaráðherra leit svo á að hann væri undanskilinn stjórnsýslulögum í þessu máli. Svör hæstv. forsætisráðherra við skriflegri fyrirspurn sem bárust í gær glitra ekki beint af trausti til fjármálaráðherra, fjármálaráðherra sem situr í hennar eigin ríkisstjórn. Telur forsætisráðherra ekki borðleggjandi að fjármálaráðherra hafi verið hæfur við söluna? Treystir hún sér ekki örugglega til að hafa skoðun á því hvort ráðherrann var hæfur í rúmlega 50 milljarða sölu ríkiseigna? Stundum felast stærstu tíðindin nefnilega í því sem ekki er sagt, því sem ekki kemur fram, því sem ekki er orðað. Forsætisráðherra getur ekki svarað beinni spurningu um hæfi formanns Sjálfstæðisflokksins í þessari sölu. Hún segir og svaraði þannig að ráðherra verði að meta hæfi sjálfur, hann verði bara sjálfur að svara því hvort hann var hæfur. Það var svarið og það er nú allt traustið.