152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú í maí voru tíu ár liðin frá stofnun Austurbrúar. Austurbrú er stofnun sem fellur ekki inn í hefðbundnar skilgreiningar á stofnunum eða hlutverkum þeirra. Hún er fyrsta stofnunin sinnar tegundar hér á landi og er enn í dag að mörgu leyti einstök eftir þessi tíu ár. Verkefni stofnunarinnar er að byggja brýr milli íbúa, atvinnulífs og stjórnsýslu og stuðla að hvers konar samvinnu sem eflir Austurland. Austurbrú varð til við samruna Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Menningarráðs Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og skrifstofu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Stofnaðilar eru yfir 30. Það hefur ekki alltaf verið einfalt að fara óhefðbundnar leiðir í stjórnsýslunni. Þrátt fyrir stefnu stjórnvalda og mikla hvatningu stjórnvalda um að brjóta niður síló og vinna þvert á skrifstofur og ráðuneyti Stjórnarráðsins getur gengið illa að fá starfsmenn stjórnsýslunnar til að vinna með þeirri hugmyndafræði. Afmælisbarnið hefur samt komið undir sig fótunum og vinnur góð verk. Verkefnin eru m.a. í þjónustu við fjarnema í háskólum, á sviði símenntunar og rannsókna, atvinnuþróunar og markaðssetningar. Þjónustunni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun mannlífs og atvinnulífs á Austurlandi. Austurbrú er með sjö starfsstöðvar og yfir 20 starfsmenn og starfsemin hefur alla tíð byggst á fjarvinnu og dreifðum starfsstöðvum, löngu fyrir Covid. Það var því gleðiefni að á afmælishátíð var staðfest af hálfu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að frá og með komandi hausti verði mögulegt að stunda BS-námi í tölvunarfræði á Austurlandi og undirbúningur fyrir frekara nám í tæknifræði heldur áfram. Um er að ræða samstarfsverkefni Austurbrúar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Kannski að breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands séu farnir að skila nýrri nálgun í stjórnsýslunni.