152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og ræða aðeins stöðu á húsnæðismarkaði. Ráðherra innviða og húsnæðismála skipaði starfshóp um umbætur á húsnæðismarkaðnum sem nýverið skilaði tillögum til ráðherra. Þar er að finna 28 tillögur í sjö málaflokkum. Það má draga fram áherslu á aukna uppbyggingu, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Þetta er auðvitað ekkert annað en plagg og einhverjir myndu segja að þetta væri enn eitt plaggið og enn ein skýrslan en hún gefur okkur samt mikilvæga yfirsýn. Hún gefur okkur svigrúm og tækifæri til að vinna raunhæfar áætlanir sem við getum svo, bæði ríki og sveitarfélög, fylgt eftir með mjög markvissum aðgerðum. Það er nefnilega þannig, og það kemur skýrt fram í þessari skýrslu frá starfshópnum, að við þurfum að byggja. Við þurfum að byggja meira. Það vantar í dag um 4.500 íbúðir á markaðinn og til viðbótar svo 35.000 íbúðir á næstu tíu árum. Það er ánægjulegt að Samband íslenskra sveitarfélaga ætli að fara að vinna rammasamning sem mun tryggja uppbyggingu 4.000 íbúða til næstu fimm ára og svo 3.500 íbúðir næstu fimm árin þar á eftir. Auðvitað er mestur þunginn hér á höfuðborgarsvæðinu og þurfa sveitarfélögin öll sem á þessu svæði eru að lyfta grettistaki og hefja kröftuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir alla hópa.