Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga mín um endurskoðun á reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku í fiskeldi liggur inni í hv. atvinnuveganefnd þingsins. Hún snýr einfaldlega að því að sú endurskoðun feli í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi. KPMG tók saman í vetur fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi. Þar má sjá að þessar greinar skila þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum. Í greiningunni má líka sjá að skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga er verulega skökk og hallar þá á sveitarfélögin. Hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtökunni í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið 29% á árunum 2016–2020. Útflutningsverðmæti eldislax jukust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á síðasta ári. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá landinu. Á Vestfjörðum eru sveitarfélögin sem hýsa starfsemina í vexti og sá vöxtur kallar á mikla innviðauppbyggingu.

Virðulegi forseti. Sveitarfélögin bera hitann og þungann af uppbyggingu innviða og því er krafa þeirra að þau fái stærri hlut af gjaldtöku sveitarfélaga. Í umsögn Vestfjarðastofu við fjármálaáætlun sem liggur nú fyrir þinginu er bent á mikilvægi þess að hraða uppbyggingu innviða fiskeldissveitarfélaga og að hlutdeild fiskeldissveitarfélaga af framlögum fiskeldisjóðs verði aukin og nemi að lágmarki 80% af tekjum sjóðsins. Það er mikilvægt að hæstv. matvælaráðherra nái að raungera stefnu stjórnvalda um að greina þjóðhagslegan ávinning fiskeldis sem og ávinning þeirra byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Þá segir í stefnu stjórnvalda að skoða þurfi sérstaklega gjaldtöku af fiskeldi og skiptingu þeirra gjalda sem til falla. Það er mikilvægt að matvælaráðherra hefur þegar hrundið því af stað að mynda stefnu um fiskeldi á landinu og inniheldur þessi breyting það líka.