Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hlutfallslega vantar flest starfsfólk í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Formaður Samiðnar, sambands iðnfélaga, segir þörf á átaki í menntakerfinu svo fleiri geti menntað sig í iðngreinum. Laus störf í byggingariðnaði hafa frá árinu 2019 verið 6,4% að meðaltali, sem eru um 1.000 störf. Í Hagsjá Landsbankans segir að greinin skilji sig frá annarri starfsemi að því leyti að litlar sviptingar hafi verið og vantað hafi töluverðan fjölda til starfa allt tímabilið. Mikill skortur er á íbúðum um allt land og sérstaklega vantar húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Starfshópur á vegum forsætisráðherra lagði á dögunum til að til að mæta eftirspurn yrði að byggja um 3.000–4.000 íbúðir á ári næstu tíu árin. Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, segir það skjóta skökku við að biðlistar séu í námi í iðngreinum þegar bráðvanti menntaða iðnaðarmenn til starfa. Á síðasta ári voru u.þ.b. 700 nemar sem komust ekki inn í iðnskóla. Oft eru það menn sem eru hálfnaðir að læra en fá ekki inni í skólunum. Það er alltaf verið að tala um að efla iðn- og starfsnám en lítið gerist.

Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili talaði menntamálaráðherra sí og æ um að mikil sókn í móttöku iðn- og tækninema væri í gangi í ráðuneytinu. Samt er staðan þessi: 700 nemar komast ekki í iðnnám þegar iðnaðarmenn vantar um allt land.

Hæstv. forseti. Það er ekki vænlegt til árangurs þegar aðgerðapakkar ráðherra og ríkisstjórnar eru ekkert nema umbúðir, skreyttar með fallegum pappír en engu innihaldi.