152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Síðastliðinn mánudag spurði hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann myndi beita sér fyrir fjölbreyttara rekstrarformi í veitingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni í heild. Svar heilbrigðisráðherra var á þá leið að rekstur sjálfstæðrar heilsugæslu gæti verið álitlegur kostur og nefndi sérstaklega Suðurnesin. Ég vil leyfa mér að fagna þessu viðhorfi ráðherra sem kemur fram í þessu svari. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur í gegnum tíðina glímt við verulegan vanda um árabil af ýmsum orsökum, m.a. vegna mönnunarvanda og fjárskorts þar sem fjárheimildir hafa ekki verið í neinu samræmi við fjölgun íbúa á svæðinu. Þetta hefur m.a. valdið því að þúsundir íbúa velja að sækja sér þjónustu til einkarekinnar heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu sem aftur veldur auknu álagi þar. Með nýju fjármögnunarlíkani fyrir heilsugæslustofnanir á landsbyggðinni er kominn tími til að heimila rekstur sjálfstætt starfandi heilsugæslu þar eins og viðgengist hefur á höfuðborgarsvæðinu um árabil. Ef hægt verður að leysa vandamál heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum með slíkri heimild er til mikils unnið. Fólk á landsbyggðinni á ekki að þurfa að ferðast langar leiðir til þess eins að fara til heimilislæknis og ég efa að fólk á höfuðborgarsvæðinu myndi láta slíkt yfir sig ganga. Að hafa aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu er réttlætismál sem landsbyggðirnar eiga að njóta ekki síður en höfuðborgarsvæðið. Yfirlýsing heilbrigðisráðherra um að það gæti verið skynsamlegt að bjóða út rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum markar því tímamót í mínum huga og vil ég hvetja heilbrigðisráðherra áfram til góðra verka. Það mun ekki standa á þingflokki Viðreisnar að vinna að slíku máli.