Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er gróft fjárhagslegt ofbeldi að skatta og skerða lífeyrissjóðstekjur öryrkja og aldraðs fólks í almannatryggingakerfinu um 75–100%. Að halda eftir 20.000–25.000 kr. af hverjum 100.000 kr. eða jafnvel engu er ekki bara gróf skattheimta og skerðingar heldur hrein og klár eignaupptaka. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur undanfarna áratugi byggt upp þetta fáránlega og arfavitlausa kerfi og lagt sig fram um að viðhalda því. Þá er einnig verið að bæta gráu ofan á svart og svikin loforð eftir loforð fyrir kosningar um að breyta þessari grófu eignaupptöku á lögvörðum lífeyrissjóði aldraðra og veiks fólks. Að skerða lífeyrissjóð almannatrygginga eftir fyrstu 20.000 kr. er fjárhagslegt ofbeldi sem bitnar verst á þeim sem síst skyldi, þ.e. launafólki, og konur koma þar verst út.

Það er öllu snúið á hvolf hjá ríkisstjórninni í þessum stórfurðulega bútasauma óskapnaði sem almannatryggingakerfið er orðið að. Ömurlegt kerfi sem ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa komið á og viðhaldið og gert viljandi svo flókið og vitlaust að venjulegt fólk getur ekki reiknað út keðjuverkandi skerðingarnar. Þetta þýðir á mannamáli að þeir verst settu eru settir beint í sárafátækt og þá á sama tíma og kvótakóngar græða á tá og fingri á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og borga lítið sem ekkert í gjöld af ofurgróðanum. Ekki er tekin króna af þeim í skerðingar eða keðjuverkandi skerðingar af tugmilljarða gróðanum. Myndu þessir aðilar sætta sig við að greiða 75% af gróða sínum í skatt til ríkisins? Nei. En á sama tíma bindur skerðingarofbeldi þá verst settu í sárafátækt í almannatryggingakerfinu í boði ríkisstjórnarinnar. Slæmt er þeirra ranglæti en verra er svokallað réttlæti, réttlæti sem kemur bara fram rétt fyrir kosningar og eru innantóm loforð um að nú sé þeirra tími kominn. Allt fer á sömu leið áður: Auðurinn streymir beint í vasa auðmanna.