Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar mæli ég fyrir nefndaráliti með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, skimunarskrá. Með frumvarpinu er lagt til að skimunarskrá verði ein af þeim heilbrigðisskrám sem embætti landlæknis ber ábyrgð á og rekur, samanber lög um landlækni og lýðheilsu. Skimunarskrá er gagnagrunnur og upplýsingakerfi sem inniheldur persónugreinanleg gögn um boð í skimun, mætingu og niðurstöðu skimana. Í dag er skimunarskrá á ábyrgð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til að embætti landlæknis geti rekið og borið ábyrgð á skimunarskrá þarf skýra lagastoð í lögum um landlækni og lýðheilsu og er frumvarpinu ætlað að útfæra nánar hlutverk embættis landlæknis um rekstur skrárinnar.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og tók við umsögnum um málið sem hún fór yfir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi á þskj. 853. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta að engar athugasemdir bárust við frumvarpið en bent var á að rangt væri farið með tölfræði mætinga í leghálsskimun í greinargerð, en það er jú eitthvað sem nefnd getur ekki breytt í meðförum þingsins, greinargerðir. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason.

Virðulegur forseti. Eins og áður sagði kemur fram í nefndarálitinu að rangt er farið með tölfræði mætinga í leghálsskimun í greinargerð og bentu umsagnaraðilar á það. Samkvæmt þeirri reikningsaðferð sem viðtekin venja er að nota við útreikninga var mætingarhlutfall kvenna í leghálsskimanir því hærra árið 2021 en fram kemur í greinargerðinni eða 65% í stað 44%, en réttar tölur má nálgast í skýrslu landlæknis um krabbameinsskimanir frá því á árinu 2021 sem kom út um svipað leyti og nefndin afgreiddi málið til 2. umr.