152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[17:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og framsögumanni nefndarinnar. Mér sýnist að þetta sé rétt skref að stíga eins og framsögumaður lagði fram. Ég vildi gjarnan að hæstv. þingmaður gæti aðeins sagt mér hver afstaða Persónuverndar var í þessu máli og síðan er það kannski seinni spurningin sem er tengd þessu og þá skimunum almennt. Um leið og verið er að ræða um skimunarskrá þá kemur í hugann alveg yfirgengilegt klúður fyrrverandi heilbrigðisráðherra þegar kom að því að flytja leghálsskimanir frá Krabbameinsfélaginu yfir í stofnanir og faðm ríkisins. Það er ekkert að því, en það var bara illa skipulagt, hvernig að því var komið. Mig langar því að spyrja: Var eitthvað farið yfir það fyrirkomulag, hvaða áhrif það hefur þá á skimunarskrána? Mun skimunarskráin með einhverju móti tryggja meira flæði, meiri upplýsingar, þegar kemur að skimunum? Ég veit að við höfum náttúrlega rætt heilmikið um þetta yfirgengilega klúður á síðasta kjörtímabili af hálfu heilbrigðisráðherra hvað snertir leghálsskimanir. En sér hv. þingmaður að fyrirkomulagið verði í öruggari höndum, skýrara fyrirkomulag, meira öryggi fyrir konurnar sem um ræðir og hafa lengi beðið í óvissu? Getur hv. þingmaður sagt að aðstaðan sé mun betri í dag og hvernig skimunarskrá getur aukið og tryggt gegnsæi og upplýsingaflæði á þessu viðkvæma sviði?