152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar og þakka ábendinguna varðandi umsögn Persónuverndar. Framsögumanni varð það á að líta einungis í nefndarálitið sem var afgreitt áður en umsögn Persónuverndar barst, svo að því sé haldið til haga, réttum dagsetningum. Engu að síður er það sem áréttað er í þessu áliti mjög mikilvægt. Varðandi það hvernig skimunarskrá eykur gagnsæi þá er það eitt af því sem hvað helst var gagnrýnt hér, í umræðu um tilflutning skimana milli aðila, að svör bárust ekki endilega til þess heilbrigðisstarfsmanns sem hafði aðgengi að svörum til að leiðbeina og upplýsa þær konur sem fóru í skimun. Þarna verður gagnsæið og upplýsingagjöfin öll mun greiðari. Það er auðvitað lykilatriði í því að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og greiðlega, hvort sem um er að ræða boðun, skráningu í sýnatöku eða upplýsingagjöf í kjölfar niðurstöðu rannsókna á sýnum kvenna. Þetta er því mikið framfaramál. Og af því að ég kom lítillega inn á það í fyrra andsvari þá fékk nefndin til sín Ágúst Inga Ágústsson, (Forseti hringir.) yfirlækni hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, í byrjun febrúar til að fara yfir stöðu skimana og hvernig þar er verið að bæta verulega úr verklagi.