Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[17:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við ræðum hér í annað sinn frumvarp um skimunarskrá. Við höfum mikið talað um skimanir, sérstaklega tengdar krabbameini. Við höfum verið að senda fyrirspurnir á hæstv. heilbrigðisráðherra og ýmis gögn varðandi skimanirnar hafa komið fram frá því að við ræddum þetta mál fyrst. Mig langar því aðeins að ræða þau mál hér þegar við tökum fyrir þetta frumvarp um skimunarskrár. Mig langaði fyrst að nefna svar við fyrirspurn sem hv. þm. Erna Bjarnadóttir sendi um aðgerðir til að auka þátttöku kvenna í skimunum fyrir leghálskrabbameini. Í því kemur fram, með leyfi forseta, að mæting í skimun fyrir leghálskrabbamein og einnig fyrir brjóstakrabbamein hefur verið undir viðmiðum til fjölda ára. Þar kemur einnig fram að hlutfall kvenna af erlendum uppruna hefur aukist verulega á Íslandi á síðustu árum og vitað er að þátttaka er minni meðal erlendra kvenna en íslenskra. Það er að mínu mati skelfilegt ástand að færri konur fari í skimanir vegna þess hversu mikilvægt tól þær eru í forvörnum.

Gerðar hafa verið úttektir á því hve forvarnir eru mikilvægar á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Það voru þekktir nóbelsverðlaunahafar í hagfræði sem settu fram þá reikniformúlu að fyrir hverja krónu sem eytt er í forvarnir sparist a.m.k. 5–6 kr. í viðbrögðum. Það er því mikilvægt að hafa í huga, þegar við erum með heilbrigðiskerfi sem er sprungið peningalega séð og við þurfum að finna leiðir til að geta veitt gæðaþjónustu fyrir minni pening, að það er nákvæmlega með því að fjárfesta í forvörnum sem við getum náð að bæta ástandið. Þar eru skimanir eitt af mörgum tækjum sem við höfum. Nú er ég bara að höfða til fjárhagslegs kostnaðar en ekki hinna skelfilegu afleiðinga sem krabbamein og aðrir sjúkdómar geta haft. Með því að finna krabbamein snemma erum við að draga úr líkunum á því að fólk þjáist eða látist af þessum völdum.

Við þekkjum það kannski flest hér að tannlæknarnir okkar eru voða duglegir við að minna okkur á það einu sinni á ári að koma í skoðun, koma í tékk, fá alla vega smá hreinsun á tönnunum. En við fáum ekki slíkt frá heilbrigðiskerfinu. Ég fæ ekki orðsendingu frá mínum heimilislækni: Heyrðu, þú ættir nú að koma og kíkja í smá tékk, athuga hvernig hjartað í þér er að slá og ýmislegt annað. Það er líka alveg ótrúlegt hvað hægt er að skoða ef t.d. væri tekin blóðprufa einu sinni á ári; finna að kólesteról er að hækka snemma, blóðsykurinn og ýmislegt annað sem skiptir máli. En það er nefnilega þannig í almenna heilbrigðiskerfinu, ekki í tannlæknaheilbrigðiskerfinu, að það er ekki fyrr en við erum farin að þjást af einhverjum einkennum sem við eigum að mæta til læknis. Það er rétt eins og við færum aldrei til tannlæknis nema þegar tannpínan er alveg að drepa okkur.

Ég ræddi um daginn við konu sem var nýflutt að utan og mætti til síns heimilislæknis, þurfti reyndar að bíða í tæpa tvo mánuði eftir að fá tíma. Heimilislæknirinn spurði hana: Hvað er að þér? Hún sagði: Ekki neitt, það er ekkert að mér. Þá spurði hann með skrýtinn svip á andlitinu: Af hverju ertu þá hérna? Hún sagði: Ég vil fara í árlegt tékk. Hann kom alveg af fjöllum og hún þurfti að knýja heimilislækninn sinn til að sinna þessum forvörnum, gera skimanir, t.d. einfaldar skimanir á blóði, til að skoða blóðsykur, kólesteról og annað. Það er nefnilega fullt af fólki sem hefur farið í að láta skoða eitthvað — var með verk einhvers staðar, var illt í bakinu, gat ekki sofið o.s.frv. — sem síðan leiddi til þess að upp var komið um ástand sem var miklu dýrara og erfiðara að vinna úr.

Það er mikilvægt að við finnum leiðir fyrir forvarnir, ekki bara á sviði krabbameins. Margar þessar forvarnir er auðvelt að framkvæma vegna þess að við erum þegar með leiðir til að taka blóðprufur og vinna úr þeim á auðveldan og hraðan hátt. Við þurfum ekki einu sinni að senda þær til útlanda. En við þurfum líka að framkvæma þessar skimanir á hraðan og þægilegan hátt fyrir fólk. Sumt fólk sefur nefnilega ekki frá því að það fer í skimun og þangað til niðurstaðan er komin. Kannski af því að það hefur þurft að eiga við krabbamein áður og er hrætt við að það sé að taka sig upp aftur. Við höfum sýnt fram á að við getum alveg unnið að forvörnum á skipulagðan hátt. Við höfum gert það undanfarin tvö ár með Covid. Við vorum fljót að byggja upp kerfi þar sem var auðvelt að panta sér tíma í skimun. Það var ferli í kringum það að taka þessi sýni og vinna úr þeim, oftast hratt og auðveldlega, og tilkynna fólki niðurstöðuna í gegnum kerfi eins og heilsuveru. Við erum búin að sýna að við kunnum þetta. Samt virðumst við geta tekið margar vikur í að koma með einhverjar niðurstöður úr t.d. krabbameinsskimunum.

En snúum okkur að skimunarskránni. Forvarnir eru mikilvægar en þegar við erum með svona stórt kerfi eins og heilbrigðiskerfið þá er mikilvægt að við séum að mæla hvernig hlutirnir ganga. Við getum ekki lagfært eða gert hluti betur ef við erum ekki að mæla þá. Þess vegna er rosalega mikilvægt, eins og kom fram í 1. umr. um þetta mál, að hafa skrár eins og þær sem hér er verið að fjalla um, t.d. til þess að geta fylgst með fyrirspurn eins og þeirri sem ég nefndi áðan frá hv. þm. Ernu Bjarnadóttur, þ.e. hvort færri séu að koma í skoðun og hvort ákveðnir þjóðfélagshópar séu síður að koma í skimanir o.s.frv. Að sjálfsögðu þarf að vinna þessar skrár og þessi gögn á þann hátt að þau séu ekki persónugreinanleg og að þau séu aðgengileg og hægt sé að vinna úr því sem þar er til að átta sig á því hvað megi betur fara. Ef við ætlum að hafa skilning á því hvernig heilbrigðiskerfið stendur þá þurfum við að mæla það.

Það er voða auðvelt fyrir stjórnmálamenn, eins og gert var hér fyrir um ári síðan, að segja bara: Heilbrigðiskerfið þarf að vera skilvirkara. Það er auðvelt að slá svona fram ef ekki er verið að mæla hvað verið er að gera og þar með átta sig á því hvar þarf að laga hlutina. Ég trúi því að við viljum öll byggja upp enn betra heilbrigðiskerfi og grunnurinn að því að byggja upp betra heilbrigðiskerfi er að nýta sér gögnin til að vita hvar pottur er brotinn. Hvar erum við að gera góða hluti og hvar erum við ekki að gera hlutina eins vel? Við eigum líka að horfa á það í gegnum þessi gögn hvar við erum að gera hluti betur eða verr en t.d. nágrannalönd okkar. Það hefur oft verið talað illa um ameríska heilbrigðiskerfið, en eitt af því sem fólk þar hefur lært, kannski af því að þau eru keyrð áfram af mjög kapítalísku sjónarmiði, er að þau skoða gögnin til að vita hvar þau eigi að bæta, hvar þau eigi að auka forvarnir og hvar þau eigi að spara pening.

Að lokum: Á meðan við gerum þetta, á meðan við komum þessari skimunarskrá á koppinn, höldum þá endilega áfram með þau skref sem stigin hafa verið síðastliðin tvö ár varðandi Covid. Þar er t.d. skimunarskrá sem sett var inn á netið tiltölulega fljótt. Það sem er kannski mikilvægast er að skimunarskráin, upplýsingarnar um hvenær þú fórst og hverjar voru niðurstöðurnar og allir þessir hlutir, var aðgengileg sjúklingum á þægilegan hátt. Það er eitt að horfa á gögnin út frá tölfræðilega hlutanum. Það þarf líka að horfa á það að einstaklingurinn geti horft á hlutina og fundið út og lært af þessum gögnum. Mörg okkar ganga með snjallúr. Þau snjallúr eru einmitt líka að safna fullt af gögnum um hegðun okkar. Það er dálítið áhugavert hvað hægt er að gera þegar þú tengir saman gögn úr sjúkraskrám og gögn úr tækjum eins og snjallúrum. Stórar rannsóknir eru í gangi þar sem t.d. er verið að tengja saman þá sem þjást af hjartasjúkdómum og vísindamenn sem vilja rannsaka hvernig mismunandi hegðun sjúklinga hefur áhrif á starfsemi hjartans. Þannig verða þessi gögn ekki bara hluti af tölfræðinni heldur verða þau hluti af fjórðu iðnbyltingunni og því að til verði nýtt og betra heilbrigðiskerfi.