152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[17:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans tölu. Ég er sammála honum um margt. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni að halda úti svona skimunarskrá. Auðvitað er líka mikilvægt að persónuupplýsingar séu verndaðar og að við séum ekki að safna viðkvæmum persónuupplýsingum umfram þörf. En það er í raun athyglisvert að við skulum ekki nýta tæknina meira en við gerum í ýmiss konar heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað líka býsna sorglegt að við séum að leggja þetta frumvarp fram núna þegar við sjáum grafalvarlegar afleiðingar af því frumhlaupi sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili þegar þjónustan var öll tekin af Krabbameinsfélaginu og að einhverju leyti dreift inn í heilsugæsluna með sérstökum hætti o.s.frv. Það er líka sorglegt að því boðunarkerfi sem rekið hafði verið áratugum saman hjá Krabbameinsfélaginu hafi bara verið sturtað niður af því að þar voru auðvitað gríðarlega mikilvægar upplýsingar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að flokki hv. þingmanns er mjög umhugað um persónuvernd: Myndi hv. þingmaður styðja það ef við myndum útfæra skrá eins og þessa og fela landlækni jafnframt að hafa skimunarskrá þegar t.d. kemur að fólki í sjálfsvígshættu, þegar kemur að þeim sem glíma við geðrænar áskoranir og fá ýmiss konar lyf vegna þess, að það (Forseti hringir.) sé í raun verið að halda utan um að það sé þróun í heilbrigðisþjónustunni við umræddan sjúklingahóp?