152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[18:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu og ég hef tekið eftir því að þessi málstaður virðist standa honum nærri, hann hefur áður talað í þessu máli. Ég hjó eftir því að hann nefndi Bandaríkin í ræðu sinni. Ég hef verið búsett þar sjálf í nokkur ár og get tekið undir það sem hann nefndi í því samhengi. Ég styð þetta mál og þau skref sem þarna er verið að stíga hvað varðar utanumhald um tölur og gögn. Til að það þjóni tilgangi þarf það að fara saman við það að stefnumótunin sé til þess fallin að byggja upp traust þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar. Varðandi það sem hér kom fram um tölur um mætingu kvenna af erlendum uppruna þá er það auðvitað staðreynd. En það er líka staðreynd að stefnumótun þessarar ríkisstjórnar hafði áhrif á mætingu kvenna í skimun og um leið áhrif á heilsu kvenna. Skimun og heilsa helst í hendur. Þegar illa er staðið að stefnumótun hefur það bein áhrif á heilsu, ég leyfi mér bara að halda því fram. Ég vildi bara koma upp til að nefna þetta sjónarmið. Það skiptir miklu máli að halda utan um gögnin og vinna upp úr þeim, að ýta við fólki hvað varðar mætingu. En stjórnvöld verða að sýna þá ábyrgð að haga ákvörðunum sínum og kynningum á þeim með þeim hætti að ekki dragi úr trausti fólks og tiltrú á heilbrigðiskerfinu.