Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[18:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Varðandi það sem hann nefnir um gögnin er það líka staðreynd, sem á eflaust við um fleiri sjúkdóma en krabbameinin, að talið er að á næstu 15 árum eða svo muni krabbameinum í samfélaginu fjölga um allt að 30%. Þetta eru upplýsingar sem hafa komið fram frá Krabbameinsfélaginu, framkvæmdastjóra þess, og það er auðvitað breyting sem mun hafa mikil áhrif á samfélagið allt en ekki síst á heilbrigðiskerfið. Við erum kannski orðin ágætlega vön því eftir heimsfaraldurinn að tala um það hvernig við léttum á heilbrigðiskerfinu. Blessunarlega erum við á þeim stað að læknavísindunum og heilbrigðiskerfinu er í auknum mæli að takast að koma í veg fyrir krabbamein, ná betri árangri í meðferð þannig að við erum með fleiri lifendur krabbameina. En það er líka áskorun sem felst í því þegar aukningin verður þetta mikil. Mér hefur fundist áhugavert að lesa um það að ríki eru mörg hver farin að koma sér upp krabbameinsáætlunum, sem sagt áætlunum sem ná yfir alla þætti, forvarnirnar, meðferðina og lífið á eftir, aukin lífsgæði o.s.frv. Ég hefði kannski viljað sjá það í þessu máli þegar við erum að tala um skimunarskrá að við hefðum heildstæðari sýn. Skimunarskráin er frábær, hún er góð, svo langt sem hún nær. Hér hefði verið svo kjörið tækifæri fyrir nýjan heilbrigðisráðherra að stíga stærra skref.