Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[18:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Enn og aftur er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég hef ákveðna von. Þegar við ræddum þetta mál hér við 1. umr. sat hæstv. heilbrigðisráðherra hér inni og hlustaði á þær tillögur og þær áhyggjur sem aðrir þingmenn höfðu, skrifaði þær niður hjá sér og kinkaði kolli. Allt eru það dæmi um að kannski sé verið að hlusta. Ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að vera með heildstæða áætlun. Hún þarf að taka á mismunandi tegundum krabbameina og forvörnum eins og skimunum. Ég tók eftir því nú í dag að það er herferð í gangi hjá Krafti sem eru samtök ungs fólks sem hefur fengið krabbamein. Við þurfum að íhuga að yngra fólk er líka að fá krabbamein og við þurfum að gera það auðveldara fyrir ungt fólk sem er kannski með ættarsögu um krabbamein og annað að komast í reglulegar skimanir þrátt fyrir að vera ekki komin á þann aldur sem almennu skimanirnar halda utan um. Ég tel það mjög mikilvægt.