Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[19:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir svarið og samtalið um þetta. Nú hefur maður heyrt hæstv. fjármálaráðherra halda margar ræður, og hann gerði það ekki síst í faraldrinum, um það að vandi spítalans væri ekki skortur á fjármagni heldur starfsfólki. Það var alltaf svolítið áhugavert að heyra hæstv. ráðherra nefna þetta ítrekað. Með því virtist hann svolítið vera að fjarlægja sig ákveðnum vanda og ábyrgð. Það er auðvitað þannig að ef það skortir ekki peninga heldur bara starfsfólk er ábyrgðin engu að síður þeirra, hlýtur að vera, sem hafa ráðið yfir ríkisrekstrinum óslitið frá 2013. Sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið meira og minna við völd hér allan lýðveldistímann hlýtur að bera ábyrgð á því fyrirkomulagi sem gerir það að verkum að fólk er ekki tilbúið til að starfa inni á þessari stórmerkilegu og frábæru og mikilvægu stofnun sem við hljótum öll að vilja hlúa að. Ég les það einhvern veginn þannig að engu máli skipti í sjálfu sér út frá ábyrgðarhliðinni hvort þetta sé skortur á fjármagni eða skortur á starfsfólki, ábyrgðin er alltaf stjórnvalda. Menn geta ekkert hoppað frá einum þættinum yfir í hinn og fríað sig þannig ábyrgð.

Ég velti því fyrir mér að það hefur líka svolítið verið talað um í þessu öllu saman að strúktúrinn almennt í spítalanum sé einhvers konar fyrirstaða fyrir því að hægt sé að ná fram betri nýtingu á fjármunum. Ég ætlaði kannski að inna þingmanninn eftir því hvort hann gæti að einhverju leyti tekið undir það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að segja, að vandinn sé einhvern veginn frekar kerfislægur inni á spítalanum en fjárhagslegur, og þá hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að eftir sem áður hljóti ábyrgðin að liggja hjá stjórnvöldum, hvort sem þetta er spurning um mannskap eða fjármagn.