Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[19:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu um þetta mál, að skipa stjórn yfir Landspítalanum. Þingmaðurinn fór yfir víðan völl og talaði um vanda heilbrigðiskerfisins sem er búinn að vera mikill lengi og fer vaxandi. Ég var líka í andsvari áðan við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur og fagnaði þessu skrefi vegna þess að það tónar alveg við þingmál sem við fluttum hér í mínum flokki árið 2020, um að skipa sjö manna stjórn yfir Landspítalanum, þar sem við lögðum til að æðsta vald innan Landspítala yrði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstétta. Það er alveg sama hvaðan gott kemur. Nú er ríkisstjórnin komin með það mál og ég fagna því. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns með andakt og eins hlustaði ég á ræðu hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar og hann talaði um að innri endurskoðun væri ábótavant í þessu. En ég heyrði ekki hjá hv. þm. Sigmari Guðmundssyni hverju mætti að bæta við þetta skref nema þá meira fé, það væri ekki eingöngu stjórnunarvandi sem væri vandamálið. Menn hafa alltaf verið að reyna að finna út hvað sé aðalvandinn. En þá spyr ég þingmanninn: Hverju hefði þingmaðurinn viljað bæta við? Ég heyrði ekki betur en að hann væri sammála frumvarpinu. Hverju hefði hann viljað bæta við?