Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[19:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanninum kærlega fyrir þetta innlegg. Hann tæpti á tveimur atriðum sem ég myndi gjarnan vilja nýta tækifærið til að fara aðeins yfir. Já, ég er svo hjartanlega sammála því að gott heilbrigðiskerfi getur nýtt krafta einkaframtaksins. En það verður ekki gert öðruvísi en að við séum með einhverja öfluga stofnun, eins og til að mynda Sjúkratryggingar, sem hefur þá öflugt eftirlitshlutverk og að það sé algerlega á hreinu hvers konar þjónustu verið er að kaupa af einkaaðilum og hvað verið er að borga fyrir hana. Það þarf að vera ótrúlega mikið gegnsæi í þessu til að viðhalda traustinu sem þarf að vera af því að þetta er svo viðkvæmt þegar við erum að veita heilbrigðisþjónustu. Þetta er auðvitað ekki eins og hvaða þjónusta sem er. Og af því að hv. þingmaður nefndi fíknisjúkdómana þá erum við með dæmi um það þar að einkarekstur hefur reynst að mínu mati mjög vel. Þetta sem Geðhjálp er að segja, sem rímar ágætlega við það sem var rætt hér, er að það hafi ekki verið hlustað á raddir notenda í gegnum árin — grasrótin, getum við sagt, hefur svo mikið að segja. Hvort hún á að hafa einhverja faglega, formlega stöðu inni í spítalanum sjálfum veit ég ekki, en við hljótum alltaf að hlusta eftir því sem hún segir. Við hljótum að taka mark á umsögn eins og hér liggur fyrir, að það sé ekki verið að hlusta á notendur heilbrigðiskerfisins. Þannig að einhvers konar grasrótarstarfsemi og einhverjir sem eru mögulega nær notendum o.s.frv., þessar raddir þurfa að eiga greiða leið inn í stjórn spítalans og auðvitað bara til okkar allra. Við hljótum að meta kerfið og gæði þess út frá því hvernig notendurnir upplifa það og hvers konar þjónustu þeir fá.