Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi.

[11:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta mál. Hann fór yfir aðdragandann og valdatíð Lúkasjenkós í stuttu máli og hún er ekkert sérstaklega fögur. Þar hafa verið framin ýmiss konar mannréttindabrot. Við höfum tekið mjög einarða afstöðu með því fólki sem þar er að tjá sig og segja hlutina eins og þeir eru og við höfum tekið fullan þátt í viðskipta- og refsiaðgerðum gegn Belarús og munum gera það áfram. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að afskipti og óbein þátttaka Belarús í aðgerðum Pútíns er mjög alvarleg og hefur kallað fram frekari viðbrögð.

Hér er spurt sérstaklega um svar mitt við fyrirspurn hv. þingmanns og hvort mér þyki það boðlegt. Einfalda svarið við þeirri spurningu er: Já, það þykir mér boðlegt vegna þess að annars hefði ég aldrei sent það frá mér. Ég hefði ekki sent frá mér óboðlegt svar. En þetta er mál sem hefur fengið töluvert mikla umræðu, bæði í nefndum og hér á þingi, og vissulega eru þar gögn sem eru trúnaðarmál og verða það áfram, samskipti þjóða ýmiss konar eru það eðli máls samkvæmt og standa þarf vörð um það upp að því marki sem eðlilegt þykir. Ég ítreka að ég mun ekki halda hlífiskildi yfir neinum sem á heima á refsilista og hef ekki beitt mér í einu einasta orði fyrir neinu slíku.