Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[15:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er með nokkrar spurningar varðandi þetta frumvarp og líka varðandi framtíðina í þessum efnum. Í fyrsta lagi vil ég óska skýringa frá hæstv. ráðherra um hvers vegna þetta mál er svona seint fram komið, það kemur hér langt eftir frest eða 15. maí. að mér sýnist, miðað við gögn þingsins og í ljósi þess sérstaklega að það lá fyrir fyrir áramót að það þyrfti að fara í a.m.k. eitthvað af þessum breytingum. Þannig að ég bið hæstv. ráðherra um að skýra það aðeins nánar. Það er síðan ágætt í sjálfu sér, a.m.k. að mínu mati, að endurgreiðslan á tengiltvinnbílum er að renna sitt skeið á enda. Þær bifreiðar eru oft því marki brenndar að þær menga jafn mikið og lítill fólksbíl og eru því í eðli sínu ekki það vistvænn ferðamáti. Að sama skapi velti ég fyrir mér þessari gríðarlegu áherslu á nýja rafmagnsbíla, sem er ágæt í sjálfu sér, en hentar bara ákveðnum hópi fólks sem hefur efni á því að kaupa sér nýjan rafmagnsbíl sem er töluvert dýr bílakostur þrátt fyrir þessar endurgreiðslur. En á meðan, eftir því sem ég kemst næst, njóta metanbílar ekki sambærilegrar ívilnunar sem þó væru töluvert aðgengilegri lægri tekjutíundum skulum við segja, þ.e. öðrum en efri- og millistétt, heldur en rafmagnsbílar. Ég velti fyrir mér hvort það beri ekki að líta til þess að ef tengiltvinnbílarnir, sem eru ekki það góður vistvænn kostur, eru farnir út, hvort það væri þá ekki rétt að koma a.m.k. metanbílunum inn á móti.