Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvers vegna málið sé seint á ferðinni. Ég hefði viljað koma með það fyrr. Það er kannski helst skýringin á því að það hefur orðið gríðarlega mikil og ör aukning á kaupum á rafmagnsbifreiðum eins og ég rakti í framsögunni og hún hefur orðið ívið meiri en við gerðum ráð fyrir. Kannski má segja að það hafi runnið upp fyrir okkur að það stefndi hratt, hraðar en við höfðum áður gert ráð fyrir, í að 15.000 bíla kvótinn yrði fullnýttur. Varðandi metanbifreiðarnar er ég ekki alveg viss um að ég hafi skilið fyrirspurnina. Er verið að vísa til þess að það sé enginn afsláttur vegna innflutnings á metanbifreiðum? (Gripið fram í.) Ég hélt kannski að það væri verið að vísa í að það hefur verið talsvert um að menn hafi tengt metaneldsneyti inn á bifreiðar sem eru þegar komnar á göturnar og hvort menn eigi með einhverjum hætti að njóta góðs af því. En ég þarf að skoða það ef það er þannig að aðrir bílar en vetnis- og rafmagnsbílar, sem geta talist raunverulegir hreinorkubílar, eru ekki með inn í afslættinum. Ég kann ekki skýringuna á því ef ég segi alveg eins og er.