Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri óráð að fjölga ekki upp í 20.000 bíla núna fyrir rafmagnsbifreiðarnar. Ef við hlustum eftir umsögnum sem hafa borist þá voru talsverðar efasemdir jafnvel um að við ættum að þrengja svo hratt að tengiltvinnbifreiðunum. En það hefur enginn haldið því fram að það væri gott að draga úr ívilnunum fyrir rafmagnsbifreiðarnar og í þessu frumvarpi erum við að ræða um virðisaukaskattinn. Við erum aðeins að lækka fjárhæðina en við erum að fjölga eintökum af rafmagnsbifreiðum. Ég held að þetta sé rétt stefna enn um sinn. Eins og ég rakti í framsögunni er hægt að sjá það sjónarmið í blöðum dagsins í dag að menn vilji halda þessu jafnvel í þrjú ár í viðbót, til ársins 2025. Þá verði framleiðslukostnaðurinn loksins orðinn það lágur að það sé ekki þörf fyrir þessar miklu ívilnanir. En það væri ofrausn ef ég á að segja alveg eins og er og við þurfum ekki að tryggja þetta mikla niðurgreiðslu fyrir jafnvel allra dýrustu bílana. Við erum að fara að feta okkur meira inn í það að taka árleg gjöld eins og bifreiðagjöld. Ég skal ekki útiloka að við stígum eitthvað fastar til jarðar en t.d. forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir. Í því sambandi má rifja upp að fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir 8 milljarða tekjuauka frá næstu áramótum af ökutækjum og eldsneyti. — Afsakið, ég var að tala um stefnuna, fjármálastefnan gerir ráð fyrir 8 milljarða tekjuauka en í fjármálaáætluninni vorum við búin að lækka það niður í 4 milljarða, m.a. vegna þess að tekjurnar hafa verið að vaxa hraðar en áður var gert ráð fyrir. Við erum að meta það þessa dagana (Forseti hringir.) hvernig við ættum að stíga niður fæti við útfærslu um næstu áramót í þessu efni.