Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Aðeins varðandi þennan síðasta punkt. Ég held að það sé alltaf gott að bæta hlutföllin í samsetningu bílaflotans. Jafnvel þótt þetta kunni enn um sinn að vera nokkuð dýrar bifreiðar, þá fara þær aftur í endursölu. Með sömu rökum má segja að það væri mjög æskilegt að fá bílaleigurnar með í þessi orkuskipti í bílaflotanum vegna þess að þeir bílar fara allir í endursölu og lækka þá í verði. Þannig standa valkostir til boða miklu fleira fólki heldur en ella.

Varðandi bifreiðagjaldið þá er það samsett gjald fyrir þá sem losa. Það er annars vegar lágmarksgjald og hins vegar, fyrir bensín og dísilbifreiðar, er viðbótargjald í bifreiðagjaldinu sem tekur mið af því hversu mikil losunin er. Þessu væri hægt að breyta. Á móti almennri hækkun bifreiðagjaldsins gætum við lækkað losunarstuðulinn, sem myndi þýða að við værum sérstaklega að teygja okkur í átt að aukinni skattlagningu á rafmagnsbifreiðar, sem eru að leggja allt of lítið fjármagn til vegakerfisins í dag. Það er ein leið. Í næstu skrefum myndum við fara að taka einhvers konar kílómetragjald. Þar er spurning hvernig nákvæmlega við myndum útfæra gjaldtökuna, hvort það yrði lesið af við skoðun eða hvort hægt væri að eiga með stafrænum hætti í samskiptum, vera með áætlun um notkun ársins o.s.frv. Það eru allt saman tæknilegar útfærslur. Aðalatriðið er að með því færum við í raun og veru eldsneytisgjöldin yfir í einhvers konar kílómetragjöld, sem er sanngjarnt og eðlilegt að séu greidd.