Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að vera með hvata til þess að fleiri fái sér rafmagnsbifreiðar vegna þess að það skiptir máli. Það minnkar losun. Það skiptir máli til þess að við náum okkar markmiðum. Ég, líkt og hv. þingmaður hefur væntanlega áttað sig á við að hlusta á ræðu mína, legg áherslu á að þessi umskipti verði ekki til þess að ýta undir ójöfnuð. En það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að vera með ívilnandi aðgerðir þarna, á þessu stigi. Það má líta á aðrar aðgerðir til að koma til móts við það að allir geti tekið þátt í baráttunni við loftslagsvána, vegna þess að við náum ekki árangri nema allir geri það. Ég held að það sé ágætt að við tökum niður tölfræðina um öll þessi mál.

Í frumvarpinu er bent á að í rauninni ganga orkuskiptin þokkalega hér á landi, þó að við þurfum að gera betur. Þarna er verið að tala um eldri bíla í endursölu sem eru þá ódýrari heldur en nýju bílarnir og síðan eru þessir bílar líka að verða ódýrari í framleiðslu sem betur fer. Ég held að það skipti máli að vera með þessa ívilnun, jafnvel þó að það geti ekki allir nýtt sér hana, en koma til móts við það fólk með öðrum hætti. Þá er ég sérstaklega að hugsa um þegar kemur að gjaldtöku sem á að fara í uppbyggingu og viðhald á vegakerfinu, af því að rafmagnsbílarnir slíta náttúrlega vegunum þó að losunin sé sem betur fer mun minni heldur en hjá bensín- og dísilbílum.