Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að þessar ívilnanir eiga ekki að vera til þess að ýta undir það að við séum að gefa fólki afslátt til þess að geta safnað sér fleiri bílum. En ég leyfi mér að fullyrða að það á við um mjög fáa. Virðisaukaskattur er neysluskattur og það skiptir máli að hann sé nýttur sem hvati þannig að fleiri kaupi sér rafmagnsbíla og fleiri séu þá í færum til að gera það. Við tryggjum ekki að það séu allir í færum til að gera það. En þetta skref, að lækka neysluskattana á rafmagnsbíla, er samt sem áður hvetjandi og hefur sýnt sig að fjölga rafmagnsbílum á götunum. Það er gott þegar við horfum á loftslagsvandann og það sem við þurfum að gera vegna hans. En við þurfum að gera svo margt í leiðinni. Við þurfum að bæta almenningssamgöngur og fækka bílunum á götunum með því að nýta okkur þau gæði sem felast í góðum almenningssamgöngum eins og við þekkjum í nágrannalöndum okkar. Þannig að ég er ekki með töfralausnina en við höfum horft á þessa þróun og við sjáum að hún skiptir máli. Ég held, af því að ég er praktísk kona, að það geti verið erfitt að útfæra að það verði bara afsláttur af virðisaukaskatti af fyrsta rafmagnsbílnum eða eitthvað slíkt. Ég held að það geti verið tafsamt í útfærslu.