Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig sem við lítum á málin þá skiptir máli að fjölga rafmagnsbílum á götunum. Þess vegna skiptir t.d. máli að bílaleigur kaupi rafmagnsbíla og það skiptir máli að innviðirnir séu þannig að ekki sé vesen og vandræði þegar kemur að rekstri rafmagnsbíla. Hv. þingmaður þarf nú bara að kalla eftir fjármálaráðherranum til að fara yfir það hvort þetta sé tekið út fyrir sviga þegar kemur að uppgjöri innskatts og útskatts. Ef hægt er að nýta þennan afslátt til að sýna minni virðisaukaskattsgreiðslu — þegar fyrirtækin eru að kaupa þjónustu á hærri prósentu þá er það aukastyrkur til fyrirtækjanna. En ég bara þekki ekki hvernig farið er með þetta mál og bið hv. þingmann að fyrirgefa mér það en fara í fjármálaráðuneytið og fá þessar upplýsingar. Í öllu falli skiptir máli að vera með hvata til að fjölga rafmagnsbílum og fækka bensín- og dísilbílum sem eru mjög hættulegir þegar kemur að loftslagsvá af mannavöldum.