Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:40]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða framsögu. Ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þingmaður talaði mikið um bílaleigur og hvað við þyrftum að gera til að breyta kauphegðun þeirra. Ég er sammála hv. þingmanni um að það þurfi sennilega að setja einhvers konar hvata og kvaðir, sennilega bæði. Það sem ég horfi á sem dálítið flóknari hlut í þessu er það hvernig við getum tryggt að ferðamenn hafi aðgang að hleðsluþjónustu, góðan aðgang að hleðsluþjónustu víða um land. Þá horfi ég sérstaklega til þess að mikið af þeirri hleðsluuppbyggingu sem hefur verið, hefur verið á venjulegum hleðslum, ekki hraðhleðslum. Ég prófaði það sjálfur á þeim rafmagnsbíl sem við eigum að keyra svolítið um Suðurland fyrir nokkru og fékk að kynnast þessum nýja kvíða sem allir eru með, hleðslukvíða, vegna þess að þegar ég loksins kom á endastöð voru 3% eftir af hleðslunni. Mig langaði að heyra hugmyndir frá hv. þingmanni um það: Hvernig getum við þrýst á betri og hraðari uppbyggingu hraðhleðslustöðva á alla vega helstu ferðamannastöðum sem við sendum fólk á?