Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:42]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það er kannski kjarni málsins að til þess að það sé raunhæft að rafvæða bílaleiguflotann þá þarf að vera einhver aðstaða fyrir ferðamenn að stinga bílunum í samband einhvers staðar. Hún þarf að vera mjög víða og mjög gott framboð þarf að vera til staðar svo að þetta verði yfir höfuð ákjósanlegt. Við höfum fyrirbæri eins og Orkusjóð sem er miklu smærri í sniðum á Íslandi en sams konar sjóðir víða í nágrannalöndunum sem gegna því hlutverki að styrkja fjárfestingar í hleðsluinnviðum. Fyrir utan beina aðkomu stjórnvalda held ég að það mætti horfa til eins sem myndi gagnast fyrir rafbílavæðingu almennt en ekki bara fyrir bílaleigurnar, en það er söluskylda söluaðila eldsneytis. Þá vísa ég til laga sem voru sett í tíð vinstri stjórnarinnar og eru sambærileg lögum víða í Evrópu um að tiltekið hlutfall heildarorku eldsneytis sé af endurnýjanlegum uppruna. Þetta eru þá almennar reglur sem gilda um alla söluaðila eldsneytis. Hér er þetta hlutfall miklu lægra en í flestum Evrópuríkjum. Þar hefur hlutfallið farið stighækkandi. Ég held að það þurfi að skoða hvort þetta sé stjórntæki sem ætti að beita í auknum mæli (Forseti hringir.) auk fjárfestingar og aðgerða til að hvetja til fjárfestinga í (Forseti hringir.) rafhleðsluinnviðum. Það er það sem kemur fyrst upp í hugann.